Eina leið okkar til að komast aftur "til manna" í samfélagi þjóðanna er að ganga í ESB, bandalag sem hefur sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi, sem mun hafa í för mér sér nauðsynlegt aðhald og aga í allri stjórnsýslu og dregur vonandi úr óeðlilegum hagsmunatengslum og annarri spillingu sem verið hefur landlæg innan íslenska stjórnkerfisins, kerfis sem stóðst ekki álagið þegar á reyndi.
Margt ljótt hefur verið sagt um ESB, öllu stýrt frá Brussel, nýlenduveldi hins illa sem gleypir litlu þjóðirnar osfrv. en slíkur málflutningur lyktar mjög af hræðsluáróðri. Landið verður ekkert flutt í burtu, við erum ennþá út í miðju Norður-Atlandshafi, við munum halda áfram að veiða fisk, bræða ál og ekki síst virkja og selja græna orku, orkugeirinn er framtíðin, okkar gull og það verður að tryggja að spilltir einstaklingar komist ekki að kötlunum.
Auðvitað verður á brattann að sækja í byrjun en þá er bara að taka á honum stóra sínum, þetta hefst með þrautseigjunni, við Íslendingar erum ekki þekktir fyrir uppgjöf. Eitt skilyrðið fyrir því að við verðum tekin inn í ESB er það að við samþykkjum IceSave samninginn og það blasir við hvort sem okkur líkar betur eða verr, að ef við ekki gerum það munum við sitja ein eftir í eymdinni, ekki einu sinni grannar okkar, Norðmenn, Danir, Svíar eða Finnar munu lyfta litla fingri okkur til hjálpar, þeim er nokk sama, "litli óvitinn" þarf á lexíu að halda og þangað til verður hann geymdur í skammarkróknum! Ég vil bæta því við að IceSave samningurinn þarf ekki að þýða að hér sökkvi allt endanlega í kaf og að við séum bara að kaupa okkur hengingarfrest. Það eru nefnilega menn (sakamenn) þarna úti sem báru ábyrgð á efnahagshruni Íslands og eins gott að sérstakur saksóknari fari í saumana á þeirra högum, þeas. hversu miklu var komið undan og það tekið til baka uppí skuldina sem allra fyrst, þjóðin gerir kröfu til þess. Takið eftir að Rússar láta Interpol elta svona kauða uppi og það jafnvel þótt þeir séu enn í stöðu grunaðra. En nú er það ESB sem er málið í dag, við ætlum ekki að láta það gerast að Ísland breytist í þjóðfélag einangrunar og stöðnunar, þeir þingmenn sem greiddu atkvæði sitt með tillögunni í dag sýndu hugrekki (og jafnvel þeir sem sátu hjá). þetta er fyrsta skrefið í áttina að endurreisninni á Ísland, annað er skref afturá bak.
Flokkur: Bloggar | 17.7.2009 | 21:56 (breytt kl. 22:01) | Facebook
Athugasemdir
Uppgjöf? Innganga í Evrópusambandið yrði alger uppgjöf. Eftirleiðis yrði landinu stjórnað af öðrum en aðilum sem við kysum til þess. Það gerðu stjórnmálamenn fjölmennari ríkja sambandsins sem væru kosnir til þess að sinna öðrum hagsmunum en okkar en þó fyrst og fremst embættismenn í stofnunum þess sem alls enginn kysi. Íslenzkt lýðræði og fullveldi heyrði sögunni til.
Það er alveg rétt hjá þér, við Íslendingar erum ekki þekktir fyrir uppgjöf og við munum heldur ekki gefast upp fyrir Evrópusambandinu og útsendurum þess hér á landi.
Áfram Ísland, ekkert ESB!
Hjörtur J. Guðmundsson, 17.7.2009 kl. 23:21
Ertu þá að segja að allar hinar evrópuþjóðirnar 27 hafi gefist upp líka? Allar þessar þjóðir hafa sína eigin þjóðarleiðtoga og ríkisstjórnir síðast þegar ég vissi. En mikið rétt, Ísland er smáfiskur á meðal stórfiskanna (Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ítalía og Spánn) og ekkert er fast í hendi enn sem komið er þótt þetta skref hafi verið stigið, öll vinnan er eftir og þar þarf að vanda til verks. Við, þegnar landsins munum svo kveða upp lokadóminn, það er lýðræði í hnotskurn. Nú þarf ríkisstjórnin láta hendur standa fram úr ermum og kynna fyrir okkur kostina og gallana því það er annað hvort þetta eða láta sig fljóta áfram niður að ósi og útí haf sem enginn veit hvar endar. Heimurinn er alltaf að minnka, fólki fjölgar og þetta er bara eðlileg þróun í átt að alheimsríkjaskipulagi þar sem landamæri heyra sögunni til og gæðum heimsins er skipt jafnar. Ísland heldur áfram að vera Ísland, við fáum bara meira valfrelsi, lægri vexti af lánunum okkar og þegar fram í sækir, stöðugan gjaldmiðil. Hver segir nei við því?
Jón V. Þorsteinsson, 18.7.2009 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.